Blogg pistlar – Cool Design Iceland ehf

Blogg pistlar

Það líður að 45 ára goslokum June 14, 2018 18:48

Í morgun, 14. júní, var umfjöllun í Morgunblaðinu um flóttann frá eldgosinu í Eyjum og annað því tengt, ég ætla ekki að blogga mikið um það málefni, heldur um innihald greinanna og hvernig það tengist hönnuna minni – en má samt nefna að ég bjó á horni Heimagötu og Grænuhlíðar í húsi sem hét Miðey. Mitt hús var rétt fyrir ofan húsið sem 7 manna fjölskyldan sem fjallað er um í greininni bjó í. Ein í þeim barnahópi var jafnaldra mín, en við vorum afar mörg börnin á eyjunni og mikið fjör í útileikjum daga og kvöld, bæði í austurbænum sem og vesturbænum (mjög skýr mörk þarna á milli!) 
Það sem fær mig til að skrifa nokkur orð er að þessi Moggaumfjöllun tengist á vissan hátt við væntanlega hönnunarsýningu sem ég verð með á Goslokahátíð 5. - 8. júlí nk. - og umfjöllunin um Noregsferðina tengist beint sýningu sem ég hannaði á 40 ára goslokahátíðnni og nefndist „Frí frá eldgosi í boði Norðmanna“ þar sem við bekkjasystur Kristín Jóhannsdóttir unnum saman að. Sú sýning varð reyndar svo vinsæl að hún var framlengd langt inn í haustið. 

Á næstu goslokahátíð mun verða með skemmtilega hönnunar- og sölusýningu í Eldheimum, þar sem ég sýni og útskýri hvernig í raun uppeldisárin á eyjunni fögru eiga sér dúpar rætur í hönnun minni og hvernig sumir hlutir eru með alveg beina tengingu. EN það sem mér finnst ekki síður vænt um er að ég mun sýna með verk frá einum þekkasta listamanni Eyjanna og kemur nánar um það seinna. Ég fékk þá hugmynd nokkuð snemma í skissuferlinu að sýningunni og að leiðir okkar tveggja ættu mjög vel saman á margan skemmtilegan hátt.

Vona ég svo sannarlega að þú sjáir þér fært að mæta og kíkja á sýninguna! - það er alveg gráupplagt að eyða einum degi á eyjunni og rölta á milli hinna fjölmörgu viðburða sem eru á dagskrá - og ekki væri síðra að gista eina nótt og bregða sér á "mini-þjóðhátíð" sem haldin er ma á Skipasandi (bak við Slippinn) 

Lestu hér umfjöllunina fyrri síðuna í Mogganum og seinni blaðsíðuna um mömmuna með 7 börn sem þurfti að kveðja manninn sinn á bryggjunni, og vissi ekkert hvert hún átti að fara! ... og hvað tók við alein uppi á fasta landinu með 7 börn ... og fleiri sögur koma líka fram - eins og að senda öll börnin til Noregs!

Njóttu dagsins og vondandi sé ég þig á Goslokahátíð 5. - 8. júlí!
Sigrún

  

Hér fyrir neðan er umfjöllun um sýningu okkar Kristínar „Frí frá eldgosi í boði Norðmanna“


Af hverju litaskipt spil?... og með gati! June 7, 2018 16:52

Lestu allt hér um söguna að baki spilastokksins Landnámsdýrin!
Af hverju litaskipt og af hverju með gati?

Að kenna með íslensku dýrunum July 17, 2017 16:30

Spilastokkurinn er magnað kennslutæki

Það er gaman að brjóta upp kennslu með leik og spilin eru alveg kjörin í það. Það hentar mörgum betur að læra með því að tengja saman myndir og texta og svo er bara líka gaman að "verðlauna" nemendur eftir góða frammistöðu með góðu "spilagiggi" - það má nefna að þessi spil þykja henta vel fyrir ADHD 😊

Nokkrar hugmyndir til að nota spilin í kennslu:

Spilin notuð við stærðfræðikennslu:

Tengja saman myndir og tölustafi - eða tölustafi og liti. Nota aukaspilin fjögur sem eru hentug til að teikna á þau ýmiss stærðfræðitákn.

 

Spilin notuð við tungumálakennslu.

Í tungumálakennslu yngstu barna eru dýranöfn og tölustafir oft eitt það fyrsta sem kennt er. Hér er svo hægt að fara lengra með því td. að láta börn draga spil og skrifa nokkur orð/sögu um það spil. 

Spilin notuð við sögukennslu

Draga spil og segja frá sögu og sérstöðu dýra - af hverju er viðkomandi dýr einstakt á heimsvísu - segja frá Landnámi Íslands og hvað landnámsfólkið tók með sér  og AF HVERJU? - hér er líka hægt að nota mannsspilin og tala um kónga og drottingar, vinnumenn og þræla fyrr og nú.

Spilin notuð við jarðfræði/landafræði

Eldvirkni Íslands - flekaskil - áhrif eldgosa á dýr? - draga út spil og segja frá hvort að eldvirkni hafi haft áhrif á lífslíkur viðkomandi dýrs - var td. íslenski fjárhundurinn í útrýmingarhættu vegna eldgosa? - eða... íslenska Landnámshænan - hvaða eldgos hafa valdið mestum hamförum - hafa eldgos td. áhrif á selastofna - Hvaða áhrif hefur flúor í gosösku á búfé?

JÁ! - og spilin getur þú keypt hér á þessari síðu
https://cooldesign.is/products/falleg-islensk-spil

Hér fyrir neðan getur þú séð hvernig hjartarspilin líta út - það eru sömu myndir á öllum 13 spilunum í hverri tegund - en hjartað er sem sagt rautt - spaðinn er blár - tígull er djúpgulur og laufið er grænt. 

Bestu kveðjur,

Sigrún

Hjartaspilin


Örlagadagurinn minn 23. janúar 1973 January 23, 2017 13:35

Ég var á þrettánda ári þegar ég var vakin upp þessa nótt og sagt að byrjað væri að gjósa svotil útí garði! – Ég hélt að þetta væri enn ein aðferðin til að reyna að gera mér ,svefnpurkunni, rúmrusk í upphafi nýs dags. En svo var nú því miður ekki. Er ég stóð úti á stétt og horfði austurúr voru risastórar gostungurnar ógnvekjandi og hávaðinn blandaðist við tregafullt baulið í kusunum hans Tobba á Kirkjubæ sem reknar voru blessaðar niður Heimagötuna til að vitja ættfeðra sinna. Brunalúðurinn baulaði líka sínu einhæfa gauli en það var venja að setja hann í gang þegar einhversstaðar kviknaði í og þetta ámáttlega gaul var alltaf váboði. Þetta var ógnþrungið andrúmsloft, allt sagði mér að hætta væri á ferð og ég fann risa hræsluhnút í maganum.

Við bjuggum í húsi sem kallað var Miðey og var á horni Heimagötu og Grænuhlíðar. Þetta var sterkbyggt timburhús, innflutt frá Noregi eitthvað í kringum 1926. Emil stjúpfaðir minn sem ávallt var kenndur við sitt uppeldishús Búland, vann hjá Vinnslustöðinni og keyrði hann bæði starfsmannarútuna og líka “trogbíl” en það var heitið yfir vörubíl á vestmannísku, hann keyrði ís í bátana og var kallaður út á öllum tímum sólarhrings. Þá hringdi svarti síminn sem var á ganginum, ég man að símanúmerið var 1934.

Mamma hringdi í vinafólk okkar sem bjuggu vestur á eyjunni og vakti þau – það tók eðlilega smá tíma fyrir nývaknaðann viðmælandann að ná þessum vátíðindum- í fyrstu hélt hann að byssóður maður væri á ferð í austurbænum því slíkt hafði átt sér stað í Reykjavík ekki löngu áður! – En eftir að hann hafði kíkt út og sá gjósandi veruleikann var þetta eins og byssuárás frá Kölska sjálfum. Við drifum okkur í rútunni til þeirra vestur á Höfðaveg og aldrei hvarflaði það að mér að þetta væri í síðasta sinn sem ég sá æskuheimili mitt.

Það var hellt uppá könnuna og sest við eldhúsborðið og horft á sístækkandi glóandi eldvegginn í austri, við biðum eftir útsendingu útvarpsins til klukkan rúmlega 04 og við biðum líka eftir Emil því hann þurfti að fara á rútunni að ná bæði í gamla fólkið á Elló og líka á sjúkrahúsið og keyra fólkið upp á flugvöll. Á meðan við biðum fór aðeins út á tún til að horfa, hávaðinn var búinn að margfaldast, það var brennisteinsfnykur og byljandi vikurregn, ég sá sprunguna lengjast í báða og ég hélt að hún myndi bæði loka höfninni og flugvellinum, jafnvel opnast ný sprunga beint undir bæinn. Ég var alveg rosalega hrædd og fannst að maginn væri kominn upp í kok. Loksins undir morgun komust við með næstsíðasta bátnum sem hét Fífill GK og hef ég gaman að segja að ég hafi komið siglandi á Fífli upp á land! Er við sigldum út höfnina fór ég skjálfandi upp á dekk og horfði er við sigldum framhjá, var það hrillileg sjón í mikilfengleik sínum, ég hélt að allt myndi springa í loft upp. Hér er stutt myndband sem lýsir þessu afar vel: https://www.youtube.com/watch?v=ghl33n26d44&app=desktop

 Við tók svo nokkra klukkustunda “æluferð”! - ég lá á gólfinu með hausinn undir stól og hélt á plastpoka sem ég þurfti að nota alla leiðina! – okkar beið strætisvagn eftir 6 klst ferð og varð ég að standa alla leiðina til Reykjavíkur með þvílíka sjóriðu. Skringileg tilfinning. Við gátum strax farið í íbúð ömmu minnar sem var erlendis á þessum tíma. Gosið var örlagavaldur minn – allt breyttist á þessari nóttu – æsku minni var lokið og við tók nýr kafli og áskoranir sem ekki verða raktar hér.

Húsið okkar skemmdist þegar hraunið endaði för sína og lagðist á það og því varð að rífa það. Við fluttum ekki tilbaka. Ég læt myndir af langri sögu hússins upphafi þess og endalokum fylgja með.

Miðey snemma á ævinniMiðey rifið - langri sögu þess lokið.

En þessa upplifun og örlög hef ég túlkað í gegnum hönnun mína – td. var ég með einkasýningu sem ég nefndi Frá gosi til grips, á HönnunarMars 2014 – þar sýndi ég handrennda leirvasa sem ég kallaði “Örlagavaldur” Stálpinni gekk í gegnum hvern vasa – þannig að hver vasi minnti á mannveru. Hægt var að fjarlægja stálpinnan – og þá var þetta eins og hver annar vasi – en þetta var mín túlkun á því þegar eldfjöllin okkar halda sér til hlés eru þau bara sakleysisleg fjöll – en er þau gjósa getur líf fólks breyst á marga vegu, fjöllin verða “örlagavaldar”.

Í fyrra þe. 2016 sérhannaði ég minjagripi fyrir Eldheimasafnið sem ég skírði Helgafell, Eldfell og Gígur. Sjá mynd hér fyrir neðan.  Hafa þeir notið mikilla vinsælda – og ef þú hefur ekki enn farið á Eldheimasafnið – þá áttu sko mikið eftir!

Ég gæti skrifað margfalt meira um hugsanir mínar varðandi þessa reynslu en þar sem þetta er bloggpóstur en ekki bók læt ég staðar numið! En fleiri vörur frá mér eru undir áhrifum frá Eyjum og má nefna Dugga-dugg skálarnar og svo auðvitað lunda serviéttuhringina: http://cooldesign.is/products/title

Vinnsla mín á bökkum úr endurunnum bókum er líka partur af þessum reynsluheimi - en það verður rakið í seinni tíma póstum. http://cooldesign.is/products/retro-tray-woodless-wood

En ég segi bara: öll reynsla er eins og vikurkorn – misstór- en partur af heild!

 

 


Fyrsta bloggið mitt - á ævinni! October 29, 2016 15:51

JÆJA gott fólk - þá er komið að því: fyrsti bloggpóstur minn og hann fjallar um val.

Mig hefur langað að blogga á þessa síðu í aðeins 2 ár eða svo! - en aldrei komið mér í það - velt fyrir mér um hvað sá merki póstur ætti að fjalla - og bjó til alls konar þröskulda í hausnum á mér sem endaði ávallt á því sama; enginn póstur. EN í dag er dagurinn - þetta er kosningadagur okkur Íslendinga  þar sem okkur er boðið að velja. Ég valdi þennan dag til að skrifa fyrsta blogg póstinn. (Auðvitað mun ég líka nýta mér kosningarétt minn á eftir) - og til að halda uppá þennan merkisdag þá verða kótilettur í raspi hér á borðum í kvöld! 

Það er allt snældu vitlaust að gera hjá mér þessa dagana. Ég tek þátt í sýningunni hjá Handverki og Hönnun sem hefst næsta fimmtudag þe. 3. nóv og stendur fram á mánudaginn 7. nóv. Ég er svo undarlega innréttuð að ég vinn best undir mikilli pressu - og þá er ég að tala um MIKILLI  pressu- efalaust inngróið í mig eins og táneglur frá þeim tíma að vinna á auglýsingastofu. En fyrir þessa sýningu ákvað ég að láta loksins verða að því að teikna og framkvæma hugmynd sem ....AÐEINS hefur verið í huga mér í 12 ár! - Jamm, sannarlega betra seint en aldrei hér á bæ.
Það sama var upp á tenginum með þessa hugmynd - að velja og hafna - það er ávallt það sem ég stend frammi fyrir sem hönnuður og auðvitað sem mannvera í heildina. Allt spurning um val.
Ég valdi loksins hvernig ég vildi hafa þetta og mun ég skrifa um það í öðrum pósti  - því það dugir ekkert minna til en heill póstur.

En fyrir þessa sýningu ákvað ég einnig -  (aftur þetta að velja) að láta gæðaprenta myndskreytingu sem ég gerði fyrr á þessu ári og kalla "Láttu hjartað ráða" 
Þið getið séð hana hér fyrir neðan. Stærð 32 x 32 cm og rammað í Gladsax ramma frá IKEA. Það verður hægt að kaupa óinnrammað eintak á sýningunni og seinna mér hér á vefsíðunni.

Hafðu hjartans þökk fyrir að lesa fyrsta bloggpóstinn minn :)
Sigrún 

 


Hvar sel ég vörur mínar? March 18, 2014 22:09

Ég sel hér á þessari vefsíðu sem og á vinnustofu minni í vesturbæ Kópavogs. Diskamottur Errós fást í safnaverslun Listasafns Reykjavíkur við Tryggvagötu. 


 

Hello you all out there and WELCOME to my new webpage. Please go to About page and read about me and very soon I will write my first blog. I will write once to twice a month about my daily life in Iceland as a designer, wife and mom. As well I will write about the story behind each project - yes - they all have their stories, just like us :) - and as well I will tell you some insider tips and secrets about Iceland, I'm not just a graphic and product designer but also a graduated Tourist Guide. You are more than welcome to send me a line if you have questions about Iceland and I will try my best. And not a least it would truly give me joy if you like my designs.

 - But creating, taking photos, writing all the text has been so much work that I didn't give my self time to write a good blog. But soon I will so stay tuned :) - you can follow me on Facebook or subscribe for my newsletter so you will get a notice about my latest blog.

Love and Peace until next,
yours truly,Liquid error: Could not find asset snippets/addthis.liquid