Af hverju litaskipt spil?... og með gati! June 7, 2018 16:52

     Ég fékk hugmynd að litaskiptum spilum fyrir mörgum árum síðan – og ég vildi hafa spilastokkinn gataðann alveg í gegn.
     Mér fannst þetta svo brill hugmynd að ég var viss um að það væri til fullt af slíkum spilum!  En svo var nú ekki raunin svo ég dreif mig í gang
.

Af hverju litaskipt?
Við vitum að hjarta og tígull eru rauð og spaði og lauf svört. Af ýmsum ástæðum eru það margir – og þá ekki aðeins börn – sem eiga erfitt með að greina á milli sortanna sem ég nefndi. Þar með kom hugmyndin um litaskipt spil – og þá kom næsta spurning; hvaða liti skildi velja?... og eftir alls konar litapælingar endaði ég í því einfaldasta = gulur-rauður-grænn og blár.

Af hverju þetta gat? – jú þar kemur saman fagurfræði og hagkvæmni – það er mjög fallegt að sjá spilin þegar þeim hefur td. verið snúið um öxul sinn og þau breiða úr sér eins og blævængur, alveg ótrúlega smart -  og í annan stað þá eru spilin alltaf á sínum stað á borðinu. Sem sagt bæði kúl og praktískt.

Af hverju íslensku landnámsdýrin?
 Frá því að ég lærði til leiðsögumanns (2004) og las um landnámsdýrin hef ég verið heilluð af þrautseigju þeirra að lifa af sem og litfögru útliti...hestar, kýr, kindur, hænur eru ein litríkustu kyn í heimi! En þá má svo sem líka setja okkur íslendinga undir sama hatt, við erum bæði þrautseig og litfögur!enda eru að sjálfsögðu íslenskar drottningar og kóngar í spilunum og sem ávallt eru einhverjir gosar innan um. 😏 

Að spila á spil
Ég er af þeirri kynslóð að við krakkarnir „lékum” okkur dagana langa – ef ekki var útiveður var dundað inni og oftar en ekki spilað á spil. Spilamennskan fór fram miðað við aldur;  – fyrst var spilaður Veiðimaður eða Langa vitleysa – (svo Ólsen-Ólsen, Rommý, Rússi o sv.fr.) og mikið ROSALEGA hefði þá verið gaman að hafa spilin mín!... maður minn – miklu skemmtilegra að safna hestum, músum, kisum... heldur en tvistum, þristum, fjörkum... Og líka miklu auðveldara að rugla ekki saman sortum í Rommý og Ólsen.   

Hvernig geta spilin ýtt undir náttúrlegt "dund" hjá börnum?
Ég var - og er -  mikill dundari og lék mér oft ein, bjó til minn eiginn heim og oftar en ekki dundaði ég mér við að byggja spilaborgir (þá var parket ekki komið í tísku – allt var teppalagt).  Þessi byggingarstarfsemi kallaði á þolinmæði, varkárni og einbeitingu, sem er börnum hollt að þroska. Stundum bjó ég til lítil þorp og klippti út litlar dúkkulísur sem ég notaði sem fólkið í þorpinu og það ýtir sannarlega undir listræna útrás.
     Ég hafði þessa minningu sterklega í huga með spilin mín – þvílíkt sem hægt er að byggja litfagrar og glaðlegar spilaborgir og ekki amalegt að hafa sællegar og brosandi kýr á húsagafli og teikna hund, kött og önnur dýr og fígúrur – klippa út og nota í leikinn.
     Þetta er bara ein af mörgum leiðum til að ýta undir meðfætt dund hjá börnum og þá kemur að okkur fullorðna fólkinu og gefa okkur tíma til að kenna þeim og vera með þeim við þá iðju. Það er nefnilega svo gaman saman 😊


     (Spilin hafa verið seld til grunnskóla þar sem þau eru notuð við ýmsa fjölbreytta kennslu og HÉR getur þú lesið um nokkrar hugmyndir).

Hvernig er hægt að nota þau á ferðalagi um Ísland?
Ekki síður eru spilin mjög svo skemmtilegur ferðafélagi  fyrir bæði fullorðna og börn. Hver kannast ekki við spurninguna; Hvenær komum við? – þá er sniðugt að hafa spilastokkinn og láta draga spil – upp kemur eitthvert dýr og þá að lesa um það í bæklingi – byrja svo að kíkja eftir hvort það sjáist á leiðinni og jafnvel bæta við meiri fróðleik. Segjum td. að hestur hafi komið upp, þá má segja frá vetrarfeldi – mismunandi litum, að hann hafi verið kallaður þarfasti þjónninn, að þetta hafi verið “bíllinn” í gamla daga – að enn sé afl bíla mælt í hestum (hestöflum) og fleira í þessum dúr.
     Ef að upp eru dregin mannaspil má nefna að eftir afleiðingar Móðuharðindanna voru bara 40.000 íslendingar eftirlifandi en annars eftirlæt ég þér alfarið að útskýra íslendendinga - he, he...!

… og megir þú svo bara vel njóta… bæði sumars og spila!

Þess óskar,