Blogg pistlar – tagged "Frá gosi til grips" – Cool Design Iceland ehf

Blogg pistlar

Örlagadagurinn minn 23. janúar 1973 January 23, 2017 13:35

Ég var á þrettánda ári þegar ég var vakin upp þessa nótt og sagt að byrjað væri að gjósa svotil útí garði! – Ég hélt að þetta væri enn ein aðferðin til að reyna að gera mér ,svefnpurkunni, rúmrusk í upphafi nýs dags. En svo var nú því miður ekki. Er ég stóð úti á stétt og horfði austurúr voru risastórar gostungurnar ógnvekjandi og hávaðinn blandaðist við tregafullt baulið í kusunum hans Tobba á Kirkjubæ sem reknar voru blessaðar niður Heimagötuna til að vitja ættfeðra sinna. Brunalúðurinn baulaði líka sínu einhæfa gauli en það var venja að setja hann í gang þegar einhversstaðar kviknaði í og þetta ámáttlega gaul var alltaf váboði. Þetta var ógnþrungið andrúmsloft, allt sagði mér að hætta væri á ferð og ég fann risa hræsluhnút í maganum.

Við bjuggum í húsi sem kallað var Miðey og var á horni Heimagötu og Grænuhlíðar. Þetta var sterkbyggt timburhús, innflutt frá Noregi eitthvað í kringum 1926. Emil stjúpfaðir minn sem ávallt var kenndur við sitt uppeldishús Búland, vann hjá Vinnslustöðinni og keyrði hann bæði starfsmannarútuna og líka “trogbíl” en það var heitið yfir vörubíl á vestmannísku, hann keyrði ís í bátana og var kallaður út á öllum tímum sólarhrings. Þá hringdi svarti síminn sem var á ganginum, ég man að símanúmerið var 1934.

Mamma hringdi í vinafólk okkar sem bjuggu vestur á eyjunni og vakti þau – það tók eðlilega smá tíma fyrir nývaknaðann viðmælandann að ná þessum vátíðindum- í fyrstu hélt hann að byssóður maður væri á ferð í austurbænum því slíkt hafði átt sér stað í Reykjavík ekki löngu áður! – En eftir að hann hafði kíkt út og sá gjósandi veruleikann var þetta eins og byssuárás frá Kölska sjálfum. Við drifum okkur í rútunni til þeirra vestur á Höfðaveg og aldrei hvarflaði það að mér að þetta væri í síðasta sinn sem ég sá æskuheimili mitt.

Það var hellt uppá könnuna og sest við eldhúsborðið og horft á sístækkandi glóandi eldvegginn í austri, við biðum eftir útsendingu útvarpsins til klukkan rúmlega 04 og við biðum líka eftir Emil því hann þurfti að fara á rútunni að ná bæði í gamla fólkið á Elló og líka á sjúkrahúsið og keyra fólkið upp á flugvöll. Á meðan við biðum fór aðeins út á tún til að horfa, hávaðinn var búinn að margfaldast, það var brennisteinsfnykur og byljandi vikurregn, ég sá sprunguna lengjast í báða og ég hélt að hún myndi bæði loka höfninni og flugvellinum, jafnvel opnast ný sprunga beint undir bæinn. Ég var alveg rosalega hrædd og fannst að maginn væri kominn upp í kok. Loksins undir morgun komust við með næstsíðasta bátnum sem hét Fífill GK og hef ég gaman að segja að ég hafi komið siglandi á Fífli upp á land! Er við sigldum út höfnina fór ég skjálfandi upp á dekk og horfði er við sigldum framhjá, var það hrillileg sjón í mikilfengleik sínum, ég hélt að allt myndi springa í loft upp. Hér er stutt myndband sem lýsir þessu afar vel: https://www.youtube.com/watch?v=ghl33n26d44&app=desktop

 Við tók svo nokkra klukkustunda “æluferð”! - ég lá á gólfinu með hausinn undir stól og hélt á plastpoka sem ég þurfti að nota alla leiðina! – okkar beið strætisvagn eftir 6 klst ferð og varð ég að standa alla leiðina til Reykjavíkur með þvílíka sjóriðu. Skringileg tilfinning. Við gátum strax farið í íbúð ömmu minnar sem var erlendis á þessum tíma. Gosið var örlagavaldur minn – allt breyttist á þessari nóttu – æsku minni var lokið og við tók nýr kafli og áskoranir sem ekki verða raktar hér.

Húsið okkar skemmdist þegar hraunið endaði för sína og lagðist á það og því varð að rífa það. Við fluttum ekki tilbaka. Ég læt myndir af langri sögu hússins upphafi þess og endalokum fylgja með.

Miðey snemma á ævinniMiðey rifið - langri sögu þess lokið.

En þessa upplifun og örlög hef ég túlkað í gegnum hönnun mína – td. var ég með einkasýningu sem ég nefndi Frá gosi til grips, á HönnunarMars 2014 – þar sýndi ég handrennda leirvasa sem ég kallaði “Örlagavaldur” Stálpinni gekk í gegnum hvern vasa – þannig að hver vasi minnti á mannveru. Hægt var að fjarlægja stálpinnan – og þá var þetta eins og hver annar vasi – en þetta var mín túlkun á því þegar eldfjöllin okkar halda sér til hlés eru þau bara sakleysisleg fjöll – en er þau gjósa getur líf fólks breyst á marga vegu, fjöllin verða “örlagavaldar”.

Í fyrra þe. 2016 sérhannaði ég minjagripi fyrir Eldheimasafnið sem ég skírði Helgafell, Eldfell og Gígur. Sjá mynd hér fyrir neðan.  Hafa þeir notið mikilla vinsælda – og ef þú hefur ekki enn farið á Eldheimasafnið – þá áttu sko mikið eftir!

Ég gæti skrifað margfalt meira um hugsanir mínar varðandi þessa reynslu en þar sem þetta er bloggpóstur en ekki bók læt ég staðar numið! En fleiri vörur frá mér eru undir áhrifum frá Eyjum og má nefna Dugga-dugg skálarnar og svo auðvitað lunda serviéttuhringina: http://cooldesign.is/products/title

Vinnsla mín á bökkum úr endurunnum bókum er líka partur af þessum reynsluheimi - en það verður rakið í seinni tíma póstum. http://cooldesign.is/products/retro-tray-woodless-wood

En ég segi bara: öll reynsla er eins og vikurkorn – misstór- en partur af heild!

 

 


Liquid error: Could not find asset snippets/addthis.liquid